Hugmynd/tillaga frá árinu 2022
Kolefnisbókhaldið (Land Use, Land Use Change and Forestry) LULUCF liggur undir stöðugum endurbótum. Miklar uppfærslur hafa átt sér stað síðustu árin, auknar kröfur um staðgreinanleg gögn er aðkallandi verkefni sem við þurfum að takast á við og mun vera einn stærsti liðurinn í þessu verkefni um nokkurt skeið.
Við höfum sætt gagnrýni til margra ára fyrir stærsta losunarþáttinn í LULUCF skilunum, sem eru framræst votlendi undir flokknum „grassland“. Þar hefur rýnin meðal annars verið vegna losunar þessarar yfirborðsgerðar sem er afleiða af flatarmálinu sem yfirborðsflokkurinn „Grassland on drained soils“ gefur okkur.
Vandamálið við aðferðina er sú að heilt yfir hefur allt raskað votlendi innan LULUCF sömu eðliseiginleika gagnvart bókhaldinu m.t.t losunar, sem er auðvitað ekki raunin.
Eftir að LBHÍ og LG birtu nýtt skurðakort árið 2020 hefur staðið til að tímasetja skurði. Það myndi svo leiða af sér breytileika í aldri raskaðra votlenda. Þegar aldur raskaðra votlenda liggur fyrir er hægt að skipta þeim upp m.t.t. breytileika þeirra. Dæmi: við má búast að 100 ára gömul framræsla hafi allt aðra eðliseiginleika en yngri framræslur. Þetta er mikil einföldun á flóknu vistfræðilegu ferli en það breytir því ekki að ávinningurinn við upplýsingarnar um aldur skurða gæfi okkur, í bland við úttektir okkar á votlendum, mun gagnsærri, áreiðanlegri og staðgreinanlegri niðurstöður en núverandi kort og gögn gera.
Þegar skurðir hafa verið tímasettir er komin undirstaða til að taka út og greina, finna mynstur og jafnvel staðfesta mismikla losun eftir aldri kerfanna.
Mikilvægt að það komi hins vegar fram að; losun gróðurhúsaloftegunda úr framræstu votlendi stýrist að mestu af hæð grunnvatns á svæðinu (virkni framræslu), fjölmargir aðrir þættir hafa líka áhrif ss. gróðurfar, jarðvegur svæðis, veðurfar (hitafar), landnotkun o.fl. Lítið er almennt vitað um ástand votlendis á Íslandi, bæði röskuð og óröskuð votlendi skipta máli.
Hvernig er hægt að áætla losun mis raskaðra votlenda?
Til að hægt sé að afla þessara aðkallandi gagna er þörf á meiriháttar átaki sem núverandi fjármagn og mannafli dekkar ekki. Með óbreyttum hætti er erfitt að ímynda sér að hægt sé að bæta staðgreinanleg gögn fyrir votlendi með afgerandi hætti.
Mætti t.d nota verkefni eins og Loftslagsvænan landbúnað til mögulegrar þróunar á verkefni sem þessu. Í því verkefni eru u.þ.b. 50 þátttakendur en til samanburðar eru u.þ.b. 1600 notendur í kerfum RML í gegnum jord.is. Vænlegasti kosturinn væri að virkja það kerfi og fá þessa 1600 skráningaraðila til að bæta aldursskráningu skurðanna innan þess kerfis.
LULUCF 2022. Landnýtingarkort fyrir árið 2021. Unnið þann 09.10.2022. Takið eftir brúna litnum en hann táknar röskuð votlendi. Smellið á mynd fyrir stærri útgáfu.
Skurðakort. Lengdir skurða innan túna og utan. Heildarlengd skurða eru rúmlega 32.000 km. Þar af eru 17.709 km innan túna/cropland. Smellið á mynd fyrir stærri útgáfu. (Endurgert skurðakort greinir frá rúmlega 34.000 km). Til samanburðar er heimilið okkar, plánetan/Jörðin um sig miðja 40.075 km
LULUCF 2022. Röskuð votlendi eru táknuð með brúnum lit. Skurðir ákvarða umfang raskaðra votlenda. Augljóst er að eðliseiginleikar raskaðra votlenda m.t.t. losunar eru mjög breytileg stærð. Kortið getur ekki tekið tillit til þessa svo fremi að skurði hafi ekki verið aldursskráðir meðal annars. Við getum lagað þetta með tiltölulega einföldum hætti ef vilji er fyrir hendi. Smellið á mynd fyrir stærri útgáfu.
Ræktað land, aldur og staðgreinanleg skipting á lífrænum- og steinefnajarðvegi
Í bókhaldinu höfum við notað töluleg gögn hvað skiptinguna „Cropland on mineral Soils and Organic Soils“ varðar.
Ef við eigum að geta framfylgt kröfum bókhaldsins (TIER 3) verðum við að geta greint frá þessum svæðum með landfræðilegum hætti. Landgræðslan hefur engin gögn eða forsendur til þess að ná í slík gögn nema að kortleggja það sérstaklega. Hef ég reynt að nálgast þetta með því að reikna fyrir þéttleika ( kernel density) skurðakerfis þ.e lengd skurða í km per km² í 5X5 m upplausn. Þannig fáum við svæði á/í LULUCF kortið sem greinir frá skiptingunni, landfræðilega. Sú skipting sem fæst sýnir landfræðilega skiptingu á lífrænum- og steinefnajarðvegi en er það í raun ekki..
RML er nú þegar að teikna inn tún. Það ætti ekki að vera stórt skref fyrir RML að bæta við því skrefi að skipta túnum upp eftir lífrænum- og steinefnajarðvegi. Aldur túna er einnig einföld skráning sem fylgja ætti með sem og aldur skurða.
LULUCF 2022. Þykkvabær. Myndin sýnir þekjur sem fengnar hafa verið frá RML síðan 2017 ásamt túnaþekju frá Þjóðskrá. Hér vantar aldur túna og skiptingu í lífrænan- og steinefnajarðveg. Athygli er einnig vakin á röskuðu votlendunum. Þetta eru stór svæði sem samkvæmt þeim gögnum sem til eru, hafa aldrei verið notuð til ræktunar. Athugið að þessi svæði eru öll að losa sama magn gróðurhúsalofttegunda í bókhaldinu óháð staðsetningu, aldri, jarðvegsgerð og svo framvegis. Smellið á mynd fyrir stærri útgáfu.
Kortlagning beitilanda
Kortlagning beitilanda sem gefin var út árið 2020 var tímamótaverk en aldrei áður höfðu beitilönd suðfjár á Íslandi verið kortlögð með skipulögðum og heildstæðum hætti. Þarna var því í fyrsta sinn hægt að skoða beitilönd Íslands í heild sinni. Hins vegar var þetta aðeins fyrsta skref og mesta áherslan var lögð á kortlagningu afrétta og upprekstrarheimalönd. Þar af leiðandi var kortlagning heimalanda á láglendi mun ónákvæmari.
Mjög mikilvægt er að halda áfram vinnunni við kortlagningu beitilanda því þau gögn eru lykilupplýsingar þegar kemur að stjórnun beitarmála. Þessi gögn eru einnig afar mikilvæg í kolefnisbókhaldinu.
Árið 2022 var aftur farið af stað að kortleggja beitilönd sauðfjár og þá einblínt á láglendari svæðin (heimalönd). Tveir sumarstarfsmenn voru ráðnir með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Afrakstur sumarsins var töluverð forvinna þar sem ólík gögn um suðfjárbú og landeignir frá Þjóðskrá voru tengd saman. Mesta vinnan fór í heimsóknir til bænda og landeigenda í þeim tilgangi að teikna upp friðuð svæði innan jarða, mismunandi beitarsvæði (haust, sumar og vor) og hvar beitilönd liggja saman og hvar þau eru afmörkuð. Þessi vinna reyndist mun tímafrekari en gert var ráð fyrir og markmiðum um kortlagningu á norðurlandi eystra og vestra náðust ekki heldur náðist eingöngu að kortleggja hluta af norðurlandi eystra. Skýringin felst að stærstum hluta í því að samtöl við mun fleiri aðila en fyrir kortlagninguna 2020 voru nauðsynleg og algengt var að landeigendur gæfu einungis upplýsingar um sín eigin lönd en ekki um jarðir nágranna sinna. Láglendissvæðin eru einnig mun flóknari en hálendissvæðin þegar kemur að ólíkri landnýtingu sem gerir kortlagninguna tímafrekari.
RML er í kjörstöðu til að fást við kortlagningu sem þessa. Allir innviðir eru nú þegar til staðar fyrir verkið.
Beitilandakortlagning 2020. Sjá nánar á www.grolind.is. Smellið á mynd fyrir stærri útgáfu.
Skráning þéttleika búfjár á afréttum
Grassland flokkurinn í LULUCF er langstærstur að flatarmáli. Ákall hefur verið til nokkurra ára að skipta þessum flokki betur upp. Vandamálið við það er að okkur vantar upplýsingar um hver nýtingin er á stærstum hluta þessa flokks. Mikilvægt er að afla betri gagna um beitarlönd og þéttleika búfjár til að auka gagnsæi og áreiðanleika bókhaldsins.
Erfitt er að meta og vakta ástand lands ef við höfum ekki upplýsingar um nýtingu þess.
Mikilvægt er að tengja þéttleika búfjár við beitarlöndin til þess að geta svararð spurningum um álag eða ástand á tilteknum vistkerfum.
Enn og aftur er RML í kjörstöðu til að bæta þessum skráningum við.
Til mikils er að vinna með samstarfi Landgræðslu og RML
Hingað til hefur staðið til að Landgræðslan fari í vettvangsvinnu með fulltrúum sínum víðsvegar um landið, heimsækja landeigendur og bændur í þeim tilgangi að tímasetja skurði. Ásamt því að fá aldur túna og skrá skiptingu á lífrænum- og steinefnajarðvegi í landfræðilegan gagnagrunn og síðast en ekki síst að kortleggja heimalöndin.
Til að svo geti orðið þurfum við að:
- Þjálfa starfsfólk/ráða fleiri sumarstarfsmenn
- Smíða kerfi og gagnagrunna til gagnaöflunar og vistunar
- Mynda traust og tengsl við bændur/landeigendur
- Gera prófanir á kerfinu, þróunarvinna og lagfæringa
Gera má ráð fyrir að vinna sem þessi tæki am.k.m. 5 ár (þá er ég að vera mjög bjartsýnn) þ.e. aldur skurða væri þá landfræðilega staðfestur ásamt skiptingu túna í lífrænan- og steinefnajarðveg og kortlagning heimalanda á góðu skriði.
Önnur leið að sömu markmiðum væri ef til vill einfaldari:
RML (Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins) hefur rekið veflægt skýrsluhaldskerfi í jarðrækt. Bændur gera m.a. áburðaráætlanir á grunni áburðarþarfar ræktaðs lands. jörð.is heldur einnig utan um túnkortagrunn en túnakortin eru eitt af þeim gagnalögum sem nýtt eru í LULUCF. Staðgreinanlegt skýrsluhald RML er sem sagt vistað í landfræðilegum upplýsingakerfum! Flest allir bændur landsins nota kerfi RML. Kröfur um það fylgja landgreiðslum.
Að þessu sögðu er því tilvalið að koma á samstarfi við RML þannig að:
• Landgræðslan afhendi RML skurðaþekju sína
• Landgræðslan afhendi beitilanda þekju sína
• RML kortleggi heimalöndin
• Bændur merki fyrir aldri skurða á sínum jörðum
• Bændur merki fyrir aldri túna
• Bændur og/eða fulltrúar RML teikni inn skiptingu túna eftir lífrænum jarðvegi annars vegar og steinefna jarðvegi hins vegar
• Bændur merki fyrir breytum eins og; Er skurðurinn framræsluskurður? Annað? Hvað? o.s.frv
Margar lausnir til, ég legg til neðangreint, sjá videó.
Eftir að hafa átt þó nokkur samtöl við bændur þá hef ég sannfæringu fyrir því að verki sem þessu væri best komið fyrir hjá fulltrúum RML, þannig mætti koma þessu að fljótt og örugglega. Mikið er um skráningar hjá bændum nú þegar. Með átaki og vilja til verksins gæti skráning skurða tekið X tíma? RML þarf að svara fyrir það en videóið sýnir þær breytur, landfræðilegan gagnagrunn og viðmót í smáforriti fyirr IOS sem er einfalt og aðgengilegt að vinna í, við gætum með þessari lausn, í rauntíma aðhafst aðlaganir á því sem betur má fara. Marktækt þýði er ekki til svo frekari rannsóknir geti farið fram.
Auðvitað eru til fleiri lausnir en sú sem ég sýni, ég veit ekki um neina aðra sem er jafn aðgengileg. Hugbúnaðarleyfi kosta aura miðað við kostnaðinn sem af meintri losun úr framræsu landi er ætlað. Við verðum að bregðast við.
Smellið á myndina (Videoið) hér til vinstri, hækkið örlítið í hljóðinu svo heyra megi útskýringar á virkni.




